Íslandsmót - úrslit
12.1.2011 | 20:27
Fyrstu helgina í september var haldið Íslandsmót í kotru og nokkuð seint orðið að birta úrslit. Því hefur verið haldið fram að Forsetinn vilji ekki gera grein fyrir úrslitunum enda frammistaða hans afleit. Önnur ástæða má vera að ákveðið var að notast við nýmóðins tækni og skrá öll úrslit í tölvu, í stað pappírs. Það sem verra var að þetta var allt skráð í tölvu Varaforsetans sem á það til að sinna skák í frístundum. Þessu afkáralega áhugamáli hefur hann því miður sinnt erlendis meira og minna frá lokum Íslandsmótsins og með tölvuna með sér - eins og það hjálpi!
Forsetinn ætlar því að reyna að koma smá skýrslu frá sér um mótið og verður að treysta á gloppótt minnið. Vonandi man hann samt hver vann.
Laugardaginn 4. september klukkan 10:30 voru tíu keppendur mættir til leiks í húsnæði Skákakademíunnar að Tjarnargötu. Það skal viðurkennt að þetta var helst til snemmt fyrir markhóp kotrunnar en framundan var stíf dagskrá.
Skipt var í tvo fimm manna - allir við alla innan riðils. Þaðan áttu fjórir efstu úr hvorum riðli að fara áfram í átta manna úrslit.
A-riðill:
1. Gísli Hrafnkelsson 3/4
2. Hrafnkell Stefánsson 2/4
3. Daníel Már Sigurðsson 2/4
4. Jóhann Jóhannsson 2/4
5. Gunnar Björn Helgason 1/4
B-riðill:
1. Stefán Freyr Guðmundsson 3/4
2. Jorge Fonseca 3/4
3. Gunnar Gunnarsson 2/4
4. Bjarni Freyr Kristjánsson 1/4
5. Róbert Lagerman 1/4
Í átta liða úrslitum áttust við Stefán og Jóhann, Jorge og Daníel, Hrafnkell og Gunnar og loks Gísli og Bjarni. Ekki er hægt að segja að staðan eftir riðlakeppnina hafi verið góð vísbending enda féllu efstu menn, Gísli og Stefán, auðveldlega út. Gunnar sigraði Hrafnkel og Jorge særði fram einhvern mesta teningagaldur sem sögur fara af þegar hann sneri við úrslitaleiknum á móti Daníel með tveimur sexutvennum í tveimur síðustu köstunum!
Í undanúrslitum áttust við Gunnar og Jóhann annars vegar og Jorge og Bjarni hins vegar. Eftir spennandi leiki upp í 9 sigruðu Gunnar og Jorge með litlum mun.
Að lokum glímdu Jorge og Gunnar um titilinn. Eftir afar jafnan leik og mikla baráttu hafði Gunnar sigur 11-8 og varð því Íslandsmeistari í kotru tímabilið 2010/2011.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt 29.1.2011 kl. 00:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.