Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Mænd Geyms

Jæja, þá er komið að því. Mænd Geyms er handan við hornið! Opinbera auglýsingin fylgir hér á eftir. Keppendur mega gjarnan skrá sínar sveitir undir einhverju nafni. Skráning fer fram með því að greiða keppnisgjaldið inn á reikning Kotrufélagsins fyrir 4. febrúar og setjið nafn sveitarinnar sem skýringu. Það þýðir að búið verður að fremja greiðsluna fyrir opnun banka föstudaginn 4. febrúar því þá fer Forsetinn og tekur út af reikningnum.

Mænd Geyms


Stjórnlagaaðventumót

Stjórnlagaaðventumót var haldið í byrjun aðventu á kosningadegi til stjórnlagaþings. Fyrirkomulagið var með sérstöku sniði. Borið hefur á því að Spánverjinn síkáti fái undraköst á heppilegum stundum. Til að ganga úr skugga um þetta var því sett upp mót til höfuðs þessum grunsamlegu köstum. Uppsetningin var þannig að aðeins tveir keppendur köstuðu teningum í hverri umferð, hvor fyrir sinn helming keppenda. Síðan þurftu keppendur allir að nota sömu köstin. Annar þessara keppenda var ávallt Jorge s. Fonseca og var sérstaklega skráð hvor keppenda hefði fengið að nota köst Spánverjans. Skemmst er frá því að segja að skor þeirra sem fengu að njóta síkátra kasta var 9 vinningar af 15 mögulegum og telst því hér með sannað að óhreint mjöl sé í pokahorni Spánverjans.

 

Að auki var sú nýlunda tekin upp að sigurvegarinn ynni sér þátttökurétt á næsta Íslandsmóti. Mun þetta fyrirkomulag verða notað á flestum mótum hér eftir. Öruggur sigurvegari mótsins varð Daníel Már og hefur því ásamt núverandi Íslandsmeistara Gunnari Gunnarssyni áunnið sér rétt til þátttöku á næsta Íslandsmóti. Að auki vann Daníel allnokkra bjórbauka í sigurlaun.

æfingamót20101127


Æfingamót - 23. október

Æfingamót var haldið 23. október á Atid. Eftir mót var að sjálfsögðu tekinn Sjúett.

æfingamót20101023


Íslandsmót - úrslit

Fyrstu helgina í september var haldið Íslandsmót í kotru og nokkuð seint orðið að birta úrslit. Því hefur verið haldið fram að Forsetinn vilji ekki gera grein fyrir úrslitunum enda frammistaða hans afleit. Önnur ástæða má vera að ákveðið var að notast við nýmóðins tækni og skrá öll úrslit í tölvu, í stað pappírs. Það sem verra var að þetta var allt skráð í tölvu Varaforsetans sem á það til að sinna skák í frístundum. Þessu afkáralega áhugamáli hefur hann því miður sinnt erlendis meira og minna frá lokum Íslandsmótsins og með tölvuna með sér - eins og það hjálpi!

Forsetinn ætlar því að reyna að koma smá skýrslu frá sér um mótið og verður að treysta á gloppótt minnið. Vonandi man hann samt hver vann.

Laugardaginn 4. september klukkan 10:30 voru tíu keppendur mættir til leiks í húsnæði Skákakademíunnar að Tjarnargötu. Það skal viðurkennt að þetta var helst til snemmt fyrir markhóp kotrunnar en framundan var stíf dagskrá.

Skipt var í tvo fimm manna - allir við alla innan riðils. Þaðan áttu fjórir efstu úr hvorum riðli að fara áfram í átta manna úrslit.

A-riðill:

1. Gísli Hrafnkelsson 3/4

2. Hrafnkell Stefánsson 2/4

3. Daníel Már Sigurðsson 2/4

4. Jóhann Jóhannsson 2/4

5. Gunnar Björn Helgason 1/4

B-riðill:

1. Stefán Freyr Guðmundsson 3/4

2. Jorge Fonseca 3/4

3. Gunnar Gunnarsson 2/4

4. Bjarni Freyr Kristjánsson 1/4

5. Róbert Lagerman 1/4

Í átta liða úrslitum áttust við Stefán og Jóhann, Jorge og Daníel, Hrafnkell og Gunnar og loks Gísli og Bjarni. Ekki er hægt að segja að staðan eftir riðlakeppnina hafi verið góð vísbending enda féllu efstu menn, Gísli og Stefán, auðveldlega út. Gunnar sigraði Hrafnkel og Jorge særði fram einhvern mesta teningagaldur sem sögur fara af þegar hann sneri við úrslitaleiknum á móti Daníel með tveimur sexutvennum í tveimur síðustu köstunum!

Í undanúrslitum áttust við Gunnar og Jóhann annars vegar og Jorge og Bjarni hins vegar. Eftir spennandi leiki upp í 9 sigruðu Gunnar og Jorge með litlum mun.

Að lokum glímdu Jorge og Gunnar um titilinn. Eftir afar jafnan leik og mikla baráttu hafði Gunnar sigur 11-8 og varð því Íslandsmeistari í kotru tímabilið 2010/2011.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband